Knattspyrnumaðurinn Eiður Gauti Sæbjörnsson hefur yfirgefið herbúðir HK.
Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum en Eiður Gauti, sem er 25 ára gamall, er uppalinn hjá félaginu.
Hann lék 13 leiki með liðinu í Bestu deildinni í sumar og skoraði í þeim þrjú mörk en þetta var hans fyrsta tímabil með liðinu í efstu deild. Hann hafði leikið með Ými, venslaliði HK, undanfarin ár þar sem hann skoraði meðal annars 66 mörk í 54 leikjum í 4. deildinni.
„HK kveður Eið með söknuði en við vitum að þetta er bara tímabundinn aðskilnaður! Vertu ávallt velkominn í Hlýjuna Eiður!“ segir meðal annars í tilkynningu HK-inga.