Íslenska landsliðið í fótbolta æfði við afar góðar aðstæður í nágrenni við Alicante á Spáni í undirbúningi fyrir leikina við Svartfjallaland og Wales í Þjóðadeildinni. Hótel liðins var eins og best verður á kosið og fór vel um leikmenn og þjálfarateymið.
„Veðrið og gott hótel skemmir ekki. Svo eru æfingavellirnir góðir og við getum æft nánast hvenær sem er. Við höfum verið hérna áður og það er ástæða fyrir því að við erum að koma aftur. Okkur líður vel hérna. Við erum mjög sáttir hér,“ sagði Davíð Snorri Jónasson aðstoðarþjálfari landsliðsins í samtali við mbl.is.
Liðsmenn Íslands spila víða um Evrópu og nokkrir utan álfunnar. Það getur því verið púsluspil að hittast á Spáni.
„Það er alltaf púsluspil að fá leikmenn til okkar. Fyrst þurfum við að ná ferðalaginu úr mönnum og svo verða allir komnir á núllpunkt eftir tvo daga. Þetta hefur gengið mjög vel,“ sagði Davíð.