Búist við að við löbbum yfir deildina

Willum hefur farið vel af stað með Birmingham.
Willum hefur farið vel af stað með Birmingham. Ljósmynd/Birmingham

„Þetta er mjög huggulegt,“ sagði Willum Þór Willumsson, landsliðsmaður í fótbolta í samtali við mbl.is um fyrstu vikurnar í Birmingham á Englandi. Hann gekk í raðir Birmingham fyrir leiktíðina frá Go Ahead Eagles í Hollandi.  

„Ég er búinn að koma mér vel fyrir og mér líður helvíti vel bæði þegar kemur að fótboltanum og öðrum hlutum,“ bætti hann við.

Birmingham féll úr B-deildinni á síðustu leiktíð og ætlar liðið beint aftur upp. Birmingham er sem stendur í öðru sæti deildarinnar og í hörðum slag um að tryggja sér sæti í B-deildinni á ný.

„Það er ótrúlega gaman og gaman að vera í liði sem er að spila upp á eitthvað. Það er mikill vilji hjá öllum innan félagsins að fara upp. Það er mikið undir í hverjum einasta leik og það er virkilega gaman.

„Það var talað um fyrir tímabilið að við ættum að fara taplausir í gegnum það. Það er farið núna og því ekki alveg eins mikil pressa. Það er samt búist við því að við eigum að labba yfir þessa deild og við eigum alveg að geta það meðlið sem við erum með. Það er bara gaman,“ sagði Willum.

Hann viðurkenndi að enska C-deildin er ekki eins sterk og hollenska úrvalsdeildin, þar sem hann lék með Go Ahead Eagles áður en hann skipti yfir til Englands.

„Það eru ekki sömu gæði í þessari deild og t.d. í Hollandi, þar sem eru meiri gæði. Þetta er alls ekki auðveld deild. Minni liðin spila oft 5-3-2, pakka í vörn, bomba löngum boltum fram og treysta á föst leikatriði. Það er öðruvísi en maður vanur og gaman að kljást við það,“ sagði hann.

Willum hefur leikið vel með Birmingham, lagt upp mörk, skorað og var tilnefndur sem leikmaður októbermánaðar í deildinni.

„Ég passa mjög vel inn í liðið og er að njóta þess að spila. Ég er búinn að vera að leggja upp, skora og er að njóta þess að spila,“ sagði Willum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka