Ísland er komið áfram í milliriðil Evrópumóts karla U19 ára í knattspyrnu eftir sigur á Moldóvu, 1:0, í Chisinau, höfuðborg Moldóvu, í dag.
Sigurmarkið var sjálfsmark strax á 9. mínútu leiksins en vinstri bakvörðurinn Davíð Helgi Aronsson komst upp að endamörkum eftir fallega sókn íslenska liðsins og sendi boltann inn í markteiginn þar sem hann fór af markverðinum í netið.
Þetta reyndist nóg en íslensku strákarnir voru sterkari aðilinn og hefðu getað bætt við mörkum. Daníel Tristan Guðjohnsen átti m.a. skot í stöng og markvörður Moldóva varði nokkrum sinnum vel. Jón Gísli Símonarson markvörður var hins vegar vel á verði í hættulegasta færi Moldóva seint í leiknum og varði vel.
Íslenska liðið er efst í riðlinum með 6 stig eftir tvær umferðir en Írar unnu Aserbaídsjan 4:0 í dag og eru með 4 stig. Moldóva er með eitt stig og Aserbaídsjan ekkert. Tvö efstu liðin komast í milliriðla, þar sem leikið verður um sæti í lokakeppninni, og íslenska liðið er því þegar komið áfram.