Ísak Bergmann Jóhannesson var kátur eftir 2:0-sigur íslenska landsliðsins gegn Svartfjallalandi í Þjóðadeild karla í knattspyrnu í Niksic í Svartfjallalandi í kvöld.
„Þetta var svolítið erfiður leikur, örugglega ekki skemmtilegur að horfa á. Mikið af návígjum og við vorum 1:0 yfir mest megnis í seinni hálfleik. Gaman að koma inn á og klára þetta í lokin.
En bara geggjað að ná í úrslitaleik á móti Wales, ef við vinnum hann þá eigum við séns á að fara í umspil um sæti í A-deild,“ sagði Ísak Bergmann í samtali við mbl.is eftir leik.
Ísak innsiglaði sigur Íslands með marki á 88. mínútu eftir góðan aðdraganda.
„Við vorum að horfa á þetta inni í klefa og mér fannst sóknin geðveik. Andri á Orra, Orri á Andra og svo finnur Andri mig með geðveikri sendingu. Ég í raun lít bara upp og hamra á markið og boltinn fer inn á nær. Ólýsanleg tilfinning að skora fyrir landið sitt, það toppar það ekkert,“ sagði Ísak.
Ísak byrjaði á bekknum en kom inn með kraft í leikinn.
„Þegar ég kom inn á þá fannst mér ég gefa liðinu orku og kraft. Auðvitað eiga þeir sín tækifæri en þetta var líkamlegur leikur og mikið um návígi. Geggjað að ná að halda hreinu og síðan skora tvö mörk. Tökum það jákvæða og reynum að vinna Wales næst,“ sagði Ísak.
Þú hefur væntanlega verið meira á bekknum heldur en þú hefðir viljað. Var ekki gott að senda ákveðin skilaboð?
„Jú algjörlega, þetta hefur verið svolítið erfitt fyrir mig, ég hef ekki fengið mikið að spila. Mér finnst ég persónulega best þegar ég er með reiði innra með mér. Maður verður að læra að nýta hana og ég nýtti hana vel,“ sagði
Ísland mætir Wales í lokaleik riðilsins á þriðjudaginn í úrslitaleik um annað sæti riðilsins sem býður upp á umspil í A-deild.
„Við þurfum að gera eins og við gerðum í seinni hálfleiknum á móti Wales. Við vorum geðveikir þar, spiluðum mjög góðan bolta. Við þurfum að fara þangað og keyra á þetta. Auðvitað þurfum við að vera skynsamir eins og í dag og halda hreinu. Öll pressan er á Wales, þeir eru á heimavelli, við getum farið þangað og stolið þessu,“ sagði Ísak að lokum.