Þetta var frábær sókn

Andri Lucas Guðjohnsen með boltann í kvöld.
Andri Lucas Guðjohnsen með boltann í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Það var svolítið erfitt að spila þennan leik,“ sagði framherjinn Andri Lucas Guðjohnsen í samtali við mbl.is. Andri lagði upp mark í sigri á Svartfjallalandi í dag, 2:0, í Þjóðadeildinni í fótbolta.

„Við sýndum karakter og alveg fram á síðustu sekúndu vorum við þéttir og sýndum góða liðsheild. Við erum mjög sáttir með að taka þrjú stig með okkur til Wales,“ sagði Andri og hélt áfram.

„Maður vissi að færin kæmu hjá mér, Orra eða hverjum sem er í sókninni hjá okkur. Sem betur fer náðum við að skora þessi tvö mörk.“

Andri lagði seinna mark Íslands upp á Ísak Bergmann Jóhannesson eftir glæsilega skyndisókn íslenska liðsins.

„Þetta var frábær sókn. Þetta var ofboðslega vel gert hjá Orra að finna mig í lappir. Ég næ svo að halda boltanum þegar ég fæ leikmann í mig og ég finn Ísak sem gerir frábærlega og klárar eins og hann gerir,“ sagði Andri, sem er spenntur fyrir úrslitaleik gegn Wales um annað sæti riðilsins.

„Við töluðum allir um að ná þessum úrslitaleik við Wales. Það getur allt gerst í þeim leik og bæði lið munu gera hvað þau geta til að vinna þann leik,“ sagði Andri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert