Craig Bellamy, þjálfari karlaliðs Wales í knattspyrnu, hélt áfram að lofa lið Íslands fyrir leik liðanna í B-deild Þjóðadeildar Evrópu í Cardiff annað kvöld.
Um hreinan úrslitaleik um annað sæti 4. riðils en Íslandi dugir einungis sigur til þess að komast upp fyrir Wales.
„Satt að segja veit ég ekki hvernig stendur í riðlinum, það eina sem skiptir mig máli er að vinna þennan leik. Það er sannleikurinn,“ sagði Bellamy á fréttamannafundi í dag.
Hann talaði fallega um íslenska liðið á fréttamannafundi eftir fyrri leik liðanna á Laugardalsvelli í síðasta mánuði sem endaði með jafntefli, 2:2, eftir að Wales hafði leitt 0:2 í hálfleik.
Bellamy átti sömuleiðis nokkur hrósyrði um Ísland á fundinum í dag.
„Við vissum að leiknum væri ekki lokið, okkur fannst leikurinn ekki gefa það til kynna. Við stjórnuðum leiknum aðeins en við vorum ekki nógu ráðandi til þess að geta sagt að þetta lið gæti ekki komið til baka.
Ekki miðað við gæði leikmanna þeirra, þjálfara þeirra og hvernig síðustu 15 ár hafa verið. Þeir eru aldrei búnir að tapa neinum leik. Þeir hafa verið á svipaðri vegferð og við þar sem þeir hafa komist á stórmót, komist í úrslitaleiki í umspilum og misst af sætum.
Þeir búa yfir mikilli reynslu, það eru mjög sterkir leikmenn að koma upp hjá þeim, þeir framleiða hágæða leikmenn. Það gerir þá hættulega. Við munum standa andspænis ýmsum áskorunum í leiknum,“ sagði hann.