Eftir leiki kvöldsins í A-deild Þjóðadeildar karla í fótbolta er ljóst hvaða fjórum liðum Ísland gæti mætt í umspili, takist íslenska liðinu að sigra Walesbúa í lokaumferð B-deildarinnar í Cardiff annað kvöld.
Nái Ísland þremur stigum í Cardiff og þar með öðru sæti riðilsins á eftir Tyrkjum fer liðið í umspil um sæti í A-deildinni gegn einhverju þeirra liða sem endar í þriðja sæti í sínum riðli A-deildar.
Nú liggur fyrir að þær fjórar þjóðir eru Skotland, Belgía, Ungverjaland og Serbía en dregið verður í umspilinu á föstudaginn kemur.
Ef Ísland vinnur ekki leikinn og endar í þriðja sæti síns riðils fer liðið hins vegar í umspil um áframhaldandi sæti í B-deildinni og mætir einhverju þeirra liða sem endar í öðru sæti í riðlum C-deildar.
Nú er ljóst að þær fjórar þjóðir eru Slóvakía, Kósóvó, Búlgaría og Armenía.
Umspilið fer fram dagana 20. og 23. mars.