Ótrúlegt að við töpum 4:1

Ísak Bergmann Jóhannesson í hasarnum í kvöld.
Ísak Bergmann Jóhannesson í hasarnum í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Mér finnst ótrúlegt að við töpum þessum leik 4:1 miðað við fyrri hálfleikinn,“ sagði Ísak Bergmann Jóhannesson landsliðsmaður í fótbolta í samtali við mbl.is eftir tap fyrir Wales, 4:1, í Þjóðadeildinni í fótbolta í kvöld.

„Mér leið mjög vel í fyrri hálfleik þar til alveg í lokin þegar við gerðum risastór mistök. Við spiluðum mjög vel í fyrri hálfleik. Þeir sköpuðu sér ekki mikið og við vörðumst vel. Við gerðum hins vegar of mikið af einstaklingsmistökum og það kostaði sitt,“ sagði Ísak og hélt áfram:

„Við hefðum verið sáttir með 1:0 eða 1:1 í hálfleik en svo fáum við á okkur mark á versta tíma og förum svolítið niðurlútir inn í hálfleikinn. Við reynum hvað við getum til að koma til baka en það er mjög erfitt þegar þú ert undir á útivelli. Að mínu mati gefur 4:1 ekki góða mynd af leiknum. Við fengum okkar færi.“

Orri Steinn Óskarsson fór meiddur af velli í fyrri hálfleik og Jóhann Berg Guðmundsson lék aðeins fyrri hálfleikinn.

Ísak Bergmann í leiknum í kvöld.
Ísak Bergmann í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Orri er lykilmaður í þessu liði. Hann og Andri eru flott framherjapar. Mikael er öðruvísi leikmaður og góður í því sem hann gerir en hann hefur ekki mikið spilað þessa stöðu. Við missum svolítið þegar við missum Orra af velli og svo Jóhann í hálfleik. Þetta eru tveir stórir leikmenn fyrir okkur.“

Ísak byrjaði sinn fyrsta keppnisleik fyrir landsliðið í nokkurn tíma eftir góða innkomu gegn Svartfjallalandi á þriðjudaginn var.

„Ég byrjaði á hægri kanti og ég reyndi að gera það besta úr því. Ég er miðjumaður og ég vil spila þar. Þetta er kannski leiðin inn fyrir mig, að byrja á kantinum og fara svo á miðjuna. Ég er ánægður með að fá 90 mínútur og þetta var fínn gluggi fyrir mig,“ sagði hann.

Aðstæður í Wales voru virkilega góðar og naut Ísak þess að spila leikinn, þrátt fyrir úrslitin.

„Þó að þetta hafi farið 4:1 var þetta góður völlur og gott lið sem við spiluðum við. Þetta var aðeins betri völlur en í Svartfjallalandi. Það var gaman að spila þennan leik en leiðinlegt hvernig hann fór,“ sagði Ísak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka