Arnór Ingvi Traustason, miðjumaður Íslands, sagðist ekki vita hvað hafi farið úrskeiðis eftir að liðið komst yfir en tapaði svo 4:1 fyrir Wales í B-deild Þjóðadeildar Evrópu í fótbolta í kvöld.
„Ég veit það ekki, það er erfitt að setja einhvern putta á það. Það er svo margt sem fer úrskeiðis og við einhvern veginn klárum ekki okkar færi og þeir refsa fyrir okkar mistök sem við gerum.
Þegar við gerum svona mistök og svona mikið af þeim eru okkur refsað. Við sköpuðum okkur helling af færum sem telur augljóslega ekki neitt núna. Þetta er fúlt,“ sagði Arnór Ingvi í samtali við mbl.is.
Ísland var með góða stjórn á leiknum fyrstu 25 mínúturnar.
„Ég var mjög ánægður með þær. Mér fannst þeir ekki komast lönd né strönd. Mér fannst við vera með þetta í lás. Svo veit ég ekki hvað fer úrskeiðis ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Það var margt skrítið í þessu,“ sagði hann.
Spurður nánar út í færin sem Ísland fékk í leiknum sagði Arnór Ingvi:
„Við hefðum getað jafnað í 2:2 og líka komist í 2:1 þegar Andri fékk færi. Svo gerum við mistök og fáum 3:1 í andlitið. Mér fannst þetta vera erfitt eftir það. Við náðum ekki að klukka þá. Þetta var svolítið annað hvort eða. Þetta er mjög pirrandi.“
Aðstæður voru allar hinar bestu í Cardiff.
„Það er líka það sem gerir þetta svona sérstaklega fúlt. Frábærar aðstæður, völlurinn glæsilegur, góðir stuðningsmenn og við að spila á móti góðu liði. Það er fúlt að geta ekki skilað úrslitum við þetta tækifæri,“ sagði Njarðvíkingurinn.
Fram undan er umspil í mars þar sem Ísland mun leika heimaleik sinn erlendis.
„Ég er reyndar ekki byrjaður að hugsa út í það en ég las það í dag. Ég gerði mér svo sem alveg grein fyrir því að Laugardalsvöllurinn yrði ekki tilbúinn í mars. Það kemur bara í ljós hvar það verður og við tökumst á við það.“