Knattspyrnumaðurinn Logi Tómasson er spenntur að komast í frí eftir afar gott fyrsta tímabil sem atvinnumaður með Strömsgodset í Noregi. Þar hefur Logi spilað mjög vel og vakið athygli félaga í stærri deildum. Tvær umferðir eru eftir af norsku úrvalsdeildinni.
„Ég er spenntur að klára þessa síðustu leiki og spenntur að komast í frí eftir langt tímabil. Það hefur verið nóg að gera og sérstaklega þegar landsliðið kemur inn í líka. Svo sjáum við hvað gerist í janúar,“ sagði Logi í samtali við mbl.is.
Logi var nálægt því að ganga í raðir belgíska félagsins Kortijk í sumar, þar sem Freyr Alexandersson er þjálfari og Patrik Sigurður Gunnarsson markvörður. Að lokum gengu félagaskiptin ekki í gegn.
„Ég var smá svekktur fyrstu vikurnar en svo heldur maður áfram með lífið og heldur áfram að standa sig í þeim verkefnum sem eru í gangi. Þetta kenndi mér það líka að vera ekki með hugann við nýjan stað fyrr en ég er kominn upp í flugvél til að skrifa undir.
Maður lærir af því. Ég er á góðum stað í dag og það er ekkert ömurlegt ef ég skipti ekki um félag í janúar,“ sagði Logi.