Ágúst Orri Þorsteinsson er genginn aftur til liðs við uppeldisfélag sitt Breiðablik. Hann kemur frá ítalska félaginu Genoa þar sem hann var á mála í rúmt ár.
Í tilkynningu frá knattspyrnudeild Breiðabliks segir að Ágúst Orri hafi samið til næstu fjögurra ára, út tímabilið 2028.
Hann er 19 ára gamall kantmaður og sóknartengiliður sem hefur leikið níu leiki fyrir Breiðablik í efstu deild. Þá á Ágúst Orri að baki þrjá bikarleiki fyrir liðið þar sem hann skoraði eitt mark á síðasta ári.
Einnig var Ágúst Orri á mála hjá Malmö í Svíþjóð í tæpt ár frá 2022 til 2023.
Hann á að baki 20 leiki fyrir yngri landslið Íslands og hefur skorað í þeim tvö mörk. Um síðustu helgi lék hann með 21-árs landsliðinu þegar það sigraði Pólverja, 2:1, í vináttulandsleik á Spáni.