Fyrirliði Fylkis eftirsóttur

Ragnar Bragi Sveinsson er eftirsóttur.
Ragnar Bragi Sveinsson er eftirsóttur. Ólafur Árdal

Knattspyrnumaðurinn Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis, er eftirsóttur af félögum í Bestu deildinni. Ragnar féll úr efstu deild með uppeldisfélaginu á leiktíðinni.

Samkvæmt heimildum mbl.is hafa Valur, Breiðablik, Stjarnan og FH öll sýnt Ragnari áhuga. Hann á tvö ár eftir af samningi sínum við Fylki og þyrftu fyrrnefnd félög því að kaupa hann af Árbæjarfélaginu til að fá hann í sínar raðir.

Ragnar, sem fagnar þrítugsafmæli sínu í næsta mánuði, hefur leikið með Fylki nær allan ferilinn.

Hann var leikmaður Víkings í Reykjavík fyrri hluta tímabilsins 2017 og þá fór hann ungur að árum til Kaiserslautern í Þýskalandi. Hann lék þó aldrei með aðalliði þýska félagsins. 

Hann hefur leikið 166 leiki í efstu deild og skorað í þeim sjö mörk. Þá hefur hann gert fjögur mörk í ellefu leikjum í 1. deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert