Åge Hareide er hættur sem þjálfari A-landsliðs karla í fótbolta en hann lætur af störfum að eigin frumkvæði eftir rúmt eitt og hálft ár í starfi.
KSÍ greindi frá rétt í þessu. Norðmaðurinn tók við íslenska liðinu af Arnari Þór Viðarssyni í apríl árið 2023 og stýrði því í 20 leikjum.
Í leikjunum 20 fagnaði íslenska liðið átta sinnum sigri, gerði tvö jafntefli og tapaði tíu. Síðasti leikur Norðmannsins var gegn Wales í Þjóðadeildinni síðastliðið þriðjudagskvöld þar sem Ísland tapaði, 4:1.
Ísland var einum leik frá því að komast á lokamót EM í sumar en tapaði fyrir Úkraínu í úrslitum umspilsins, 2:1, í mars.
Fram undan hjá íslenska liðinu eru leikir við Kósovó í umspili um að halda sæti sínu í B-deild Þjóðadeildarinnar eftir að Ísland hafnaði í þriðja sæti síns riðils.
Í sex leikjum í Þjóðadeildinni í ár vann Ísland tvo leiki, gerði eitt jafntefli og tapaði þremur.