Í fyrsta og vonandi í síðasta sinn þarf karlalandslið Íslands í fótbolta að leika mikilvægan heimaleik á útivelli þegar það mætir Kósóvó í umspili Þjóðadeildar í mars.
Það hlaut að koma að þessu og í raun slapp KSÍ fyrir horn með þetta fyrr á þessu ári þegar Ísland dróst á útivöll í umspilsleikjum sínum fyrir EM karla og lék í mars gegn Ísrael í Búdapest og Úkraínu í Wroclaw.
Í vikunni skýrist hvar þessi heimaleikur verði leikinn. Vonandi verður hann á velli sem ýtir undir þokkalega aðsókn íslenskra áhorfenda.
Guðjón Þórðarson stakk upp á sínum gamla heimavelli í Stoke á Englandi og margt væri vitlausara. Það var líka heimavöllur núverandi formanns KSÍ um tveggja ára skeið.
Einhver völlur á Englandi sem væri nær alþjóðaflugvelli væri þó líklega enn betri kostur.
Bakvörðinn má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.