Snýr aftur í heimahagana

Elfar Árni handsalar samninginn.
Elfar Árni handsalar samninginn. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Knattspyrnumaðurinn Elfar Árni Aðalsteinsson hefur gert samning við uppeldisfélagið sitt Völsung. Hann kemur til félagsins frá KA.

Hinn 34 ára gamli Elfar skipti frá Völsungi og til Breiðabliks árið 2012 og eftir þrjú tímabil í Kópavoginum flutti hann aftur á Norðurlandið og samdi við KA, þar sem hann hefur verið síðan.

Í 192 leikjum í efstu deild hefur Elfar skorað 57 mörk. Hann gerði m.a. 13 mörk í 20 leikjum tímabilið 2019 og var um nokkurt skeið fyrirliði Akureyrarliðsins. Hlutverk hans var minna í ár því Húsvíkingurinn lék 13 deildarleiki með KA á liðinni leiktíð en þá varð hann bikarmeistari með Akureyrarliðinu.

Elfar kveður KA sem næstmarkahæstur og þriðji leikjahæstur í sögu félagsins í efstu deild.

Samtals hefur Elfar skorað 117 mörk í 332 leikjum í fjórum efstu deildum Íslandsmótsins með Völsungi, Breiðabliki og KA.

Völsungur endaði í 2. sæti í 2. deild á tímabilinu og leikur því í 1. deild á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka