Knattspyrnumaðurinn Benedikt V. Warén er genginn til liðs við Stjörnuna frá Vestra en hann hefur verið í stóru hlutverki hjá Vestfjarðaliðinu undanfarin tvö ár.
Vestri skýrði frá því í tilkynningu í dag að félagið hefði selt Benedikt til Garðabæjarfélagsins.
Benedikt er 23 ára kantmaður sem var án efa besti leikmaður Vestra í ár þegar liðið lék í efstu deild í fyrsta skipti og náði að halda sæti sínu þar.
Hann er uppalinn hjá breiðabliki, lék með Vestra í 1. deildinni 2021, með Skagamönnum í Bestu deildinni 2022 og svo með Vestra í 1. deildinni í fyrra og í Bestu deildinni í ár.
Hann hefur skorað 7 mörk í 50 leikjum í efstu deild, þar af fimm mörk í 26 leikjum með Vestra á þessu ári, og 12 mörk í 34 leikjum í 1. deild.