Arnór Smárason hefur verið ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá Val. Arnór mun hefja störf 1. janúar næstkomandi.
Arnór lagði skóna á hilluna í haust eftir að hafa leikið með uppeldisfélaginu ÍA síðustu tvö tímabil. Hann á að baki farsælan feril í Skandinavíu og lék með Val á árunum 2021 til 2023.
„Ég er afar þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt með því að ráða mig sem yfirmann knattspyrnumála hjá eins stórum og metnaðarfullum klúbbi og Valur er. Að sama skapi hlakka ég mikið til samstarfsins við allt það frábæra fólk sem ég veit að er í Val við að byggja upp og móta framtíðarsýn félagsins,“ segir Arnór í tilkynningu frá félaginu.
„Það er mikilvægt að hafa það í huga að umgjörðin hjá Val er fyrsta flokks. Ég spilaði lengi í Skandinavíu og þegar knatthúsið verður komið og nýi völlurinn þá myndi ég telja að félagið sé á pari við það sem best þekkist þar,“ segir Arnór.
„Við erum ótrúlega ánægð með að hafa náð að sannfæra Arnór um að koma með okkur í þessa vegferð. Hann verður lykilaðili í að lyfta fótboltanum hjá okkur á enn hærra plan og af samtölum okkar að dæma þá deilir hann sömu sýn og við í stjórn fótboltans,“ segir Björn Steinar Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, um ráðningu Arnórs.