500 dýrvitlausir Svíar í Kópavogi

Víkingur mætir Djurgården á morgun.
Víkingur mætir Djurgården á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víkingur úr Reykjavík mætir sænska liðinu Djurgården í Sambandsdeildinni í fótbolta á Kópavogsvelli klukkan 13 á morgun. Bæði lið eru með sjö stig eftir fjóra leiki og í baráttunni um að fara í útsláttarkeppnina.

„Þetta er sterkt lið þótt þetta lið sé ekki stórkostlegt á neinu sviði. Þeir gera alla hluti jafnt og vel. Þetta er þétt lið sem er með skandinavískt hugarfar. Þetta lið spilar 4-4-2 eins og Svíarnir eru frægir fyrir.

Þeir hafa verið að ná í mjög góð úrslit hingað til í þessari keppni. Mér finnst þessi lið sem við eigum eftir, Djurgården og LASK, vera tvö sterkustu liðin sem við eigum eftir að spila við í þessari deildarkeppni.

Það er mikið undir hjá þeim og þeir koma yfir með 500 dýrvitlausa stuðningsmenn. Þetta verður krefjandi verkefni fyrir okkar stráka. Við erum samt með stórkostlegan árangur á heimavelli í Evrópuleikjum.

Við erum búnir að spila tólf leiki á heimavelli undanfarin ár, unnið átta, þrjú jafntefli og aðeins tapað einu sinni. Stór lið hafa tapað fyrir okkur hér á heimavelli og við komum fullir sjálfstrausts í þennan leik,“ sagði Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings um leikinn á blaðamannafundi á Kópavogsvelli í dag.

Ekki flóknara en það

Með sigri á morgun verða Víkingarnir í baráttunni um átta efstu sætin í lokaumferðinni en þau fara beint í 16-liða úrslit. Liðin í 9.-24. sæti fara í umspil um hin átta sætin í 16-liða úrslitunum.

„Við erum byrjaðir að leyfa okkur að dreyma þótt við séum ekki að tapa okkur í gleðinni. Ef við vinnum á morgun förum við í flugvél til Austurríkis og erum að fara að spila um átta efstu sætin, þetta er ekki flóknara en það.

Við byrjum á að verja stigið og þá fáum við þægilega ferð til Austurríkis með umspilið öruggt. Við verjum stigið fyrst og svo sjáum við hvort við getum náð í þrjú stig,“ sagði Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert