Þrír leikmenn eru gengnir til liðs við Þór á Akureyri og munu leika með karlaliði félagsins í knattspyrnu á næsta tímabili. Þetta eru þeir Ibrahima Baldé, Franko Lalic og Víðir Jökull Valdimarsson.
Baldé, sem er 28 ára miðjumaður frá Senegal, kemur frá Vestra þar sem hann lék í Bestu deildinni á síðasta tímabili og í 1. deild tímabilið á undan. Samdi hann til loka næsta tímabils.
Lalic er 33 ára Króati sem kemur frá nágrönnunum í Dalvík/Reyni, þar sem hann lék í 1. deild á síðasta tímabili. Hann er markvörður og samdi til tveggja ára.
Við sama tilefni tilkynnti knattspyrnudeild Þórs að markvörðurinn Aron Birkir Stefánsson hafi skrifað undir nýjan tveggja ára samning.
Víðir Jökull er sömuleiðis markvörður og kemur til Þórs frá Val, en hann er aðeins 17 ára gamall. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann leikið 35 leiki í meistaraflokki fyrir KH, venslafélag Vals.