FH-ingurinn Úlfur Ágúst Björnsson og Eyjamaðurinn Sigurður Arnar Magnússon eru meðal þeirra leikmanna sem koma til greina í nýliðavali bandarísku MLS-deildarinnar í knattspyrnu sem fer fram á morgun.
Á heimasíðu MLS-deildarinnar segir að Úlfur sé af mörgum talinn besti framherjinn sem komi til greina en hann leikur með liði Duke-háskóla og hefur verið í lykilhlutverki í sóknarleik FH undanfarin tvö ár.
Úlfur skoraði fimm mörk í 13 leikjum FH í Bestu deildinni í ár en hann missti af helmingi tímabilsins vegna námsins í Bandaríkjunum.
Tíu framherjar eru nefndir sérstaklega til sögunnar í grein um nýliðavalið á síðu MLS og Úlfur er settur efstur á listann af þeim.
Sigurður Arnar leikur með Ohio State háskóla en hann er 25 ára varnarmaður ÍBV og hefur spilað með meistaraflokki Eyjamanna frá árinu 2016. Hann lék einnig aðeins rúman helming leikja Eyjamanna í 1. deildinni, 12 af 22, á þessu ári og skoraði eitt mark.
Liðin í MLS-deildinni hafa úr 477 leikmönnum frá 150 skólum í Bandaríkjunum að velja.