Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Engu líkara er en að Hermann Hreiðarsson fái sér sæti á andliti sænsk andstæðings á þessari frábæru mynd Ásdísar Ásgeirsdóttur frá árinu 2000.
Ísland og Svíþjóð mættust þá í vináttulandsleik í knattspyrnu á Laugardalsvellinum hinn 16. ágúst og höfðu Íslendingar betur 2:1. Var það fyrsti sigurinn á Svíum í A-landsleik karla í heil 49 ár. Fara þurfti aftur til leiksins fræga 1951 þegar Ríkharður Jónsson afgreiddi Svíana með fjórum mörkum í 4:3 sigri á Melavellinum eins og komið hefur verið inn á í Gömlu ljósmyndinni.
Barnabarn Ríkharðs, Ríkharður Daðason skoraði fyrir Ísland í leiknum fyrir tuttugu og fjórum árum en Helgi Sigurðsson skoraði einnig fyrir Ísland sem þá lék undir stjórn Atla Eðvaldssonar.
Á myndinni tekst Hermanni að ná skalla að marki Svía í fyrri hálfleik en á myndinni eru einnig Íslendingarnir Eyjólfur Sverrisson og Ríkharður en þessir þrír voru gjarnan aðgangsharðir í föstum leikatriðum á þessum árum. Sá sem verður fyrir Hermanni er líklega Daniel Andersson og fyrir aftan virðist vera Teddy Lucic. Báðir léku þeir í efstu deild á Ítalíu á þessum tíma og í markinu er Magnus Hedman.
Hermann er uppalinn í Eyjum og vakti fyrst athygli með ÍBV. Er það eina liðið sem hann hefur spilað með hér heima. Hann á að baki langan feril á Englandi með Crystal Palace, Brentford, Wimbledon, Ipswich, Charlton, Portsmouth og Coventry. Hermann lék alls 315 leiki í ensku úrvalsdeildinni og yfir 500 deildarleiki á ferlinum. Lék hann 89 A-landsleiki og skoraði 5 mörk.
Hermann er eini Íslendingurinn sem orðið hefur enskur bikarmeistari í knattspyrnu en hann var í leikmannahópi Portsmouth sem varð bikarmeistari 2010 en þegar að úrslitaleiknum kom hafði hann slitið hásin.
Hermann var fimm sinnum á meðal tíu efstu í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins: 2000, 2003, 2004, 2005 og 2008.