Knattspyrnuþjálfarinn Arnar Gunnlaugsson nýtur sín vel í Sambandsdeild UEFA en Víkingur úr Reykjavík, undir stjórn Arnars, er kominn alla leið í umspil um sæti í 16-liða úrslitum keppninnar.
Víkingar mæta gríska stórliðinu Panathinaikos í umspili, dagana 13. og 20. febrúar en fyrri leikurinn er heimaleikur Víkinga og sá síðari fer fram í Aþenu í Grikklandi.
Víkingar höfnuðu í 19. sæti Sambandsdeildarinnar með 8 stig en liðið lagði Cercle Brugge og Borac Banja Luka á Kópavogsvelli og gerði jafntefli við Noah og LASK á útivelli.
„Mér finnst þetta ótrúlega gaman og taktískt séð er þetta aðeins fyrirsjáanlegri fótbolti en hérna heima sem dæmi,“ sagði Arnar.
Það er mjög lítið sem kemur manni á óvart einhvern veginn hjá þessum liðum sem við höfum mætt. Þau eru misjafnlega taktísk auðvitað en þau eiga það flest sameiginlegt að vera ekki að breyta mikið út af vananum.
Ég fíla mig mjög vel í þessu umhverfi og maður er kominn með góða reynslu líka í þessum Evrópuleikjum enda Evrópuleikirnir orðnir ansi margir á síðustu árum. Þetta hefur verið rosalegur skóli og maður er nánast búinn að taka doktorsgráðu í fótbolta á þessum tíma,“ bætti Arnar við í samtali við mbl.is.