Keppni í Bestu deild kvenna í fótbolta árið 2025 hefst fyrr en nokkru sinni áður en fyrstu tveir leikirnir eiga að fara fram 15. apríl, samkvæmt drögum að niðurröðun sem KSÍ birti í dag.
Það er viku fyrr en á síðasta ári þegar keppni í deildinni hófst 21. apríl.
Fyrstu umferðina á að leika 15. og 16. apríl, þriðjudag og miðvikudag fyrir páska, og aðra umferðina í vikunni á eftir.
Íslandsmeistarar Breiðabliks taka á móti Stjörnunni í öðrum af tveimur fyrstu leikjunum og nýliðar Fram leika sinn fyrsta leik í efstu deild kvenna í 37 ár á sama tíma, gegn Þrótti í Reykjavíkurslag.
Þá spilar Austfjarðaliðið FHL sinn fyrsta leik í sögunni í efstu deild miðvikudaginn 16. apríl þegar það heimsækir Tindastól til Sauðárkróks.
Upphafsleikur tímabilsins, Meistarakeppni KSÍ, þar sem Íslandsmeistarar Breiðabliks mæta bikarmeisturum Vals, fer fram föstudagskvöldið 11. apríl á Kópavogsvelli.
Fyrstu umferðirnar í Bestu deild kvenna eru sem hér segir:
Þriðjudagur 15. apríl:
18.00 Breiðablik - Stjarnan
18.00 Þróttur R. - Fram
Miðvikudagur 16. apríl:
18.00 Tindastóll - FHL
18.00 Víkingur R. - Þór/KA
18.00 Valur - FH
Mánudagur 21. apríl:
14.00 FHL - Valur
17.00 Þór/KA - Tindastóll
Þriðjudagur 22. apríl:
18.00 Þróttur R. - Breiðablik
18.00 Fram - FH
18.00 Stjarnan - Víkingur R.
Niðurröðun Bestu deildar kvenna
Síðasta umferðin í hefðbundinni deildarkeppni fer fram laugardaginn 20. september.
Síðustu umferðirnar þar sem efstu sex liðin mætast innbyrðis, sem og fjögur neðstu liðin, eru leiknar frá 27. september til 18. október.