Byrjað viku fyrr í Bestu deild kvenna

Breiðablik og Valur börðust um titilinn í fyrra og eiga …
Breiðablik og Valur börðust um titilinn í fyrra og eiga bæði heimaleik í fyrstu umferðinni í vor. mbl.is/Ólafur Árdal

Keppni í Bestu deild kvenna í fótbolta árið 2025 hefst fyrr en nokkru sinni áður en fyrstu tveir leikirnir eiga að fara fram 15. apríl, samkvæmt drögum að niðurröðun sem KSÍ birti í dag.

Það er viku fyrr en á síðasta ári þegar keppni í deildinni hófst 21. apríl.

Fyrstu umferðina á að leika 15. og 16. apríl, þriðjudag og miðvikudag fyrir páska, og aðra umferðina í vikunni á eftir.

Íslandsmeistarar Breiðabliks taka á móti Stjörnunni í öðrum af tveimur fyrstu leikjunum og nýliðar Fram leika sinn fyrsta leik í efstu deild kvenna í 37 ár á sama tíma, gegn Þrótti í Reykjavíkurslag.

Þá spilar Austfjarðaliðið FHL sinn fyrsta leik í sögunni í efstu deild miðvikudaginn 16. apríl þegar það heimsækir Tindastól til Sauðárkróks.

Upphafsleikur tímabilsins, Meistarakeppni KSÍ, þar sem Íslandsmeistarar Breiðabliks mæta bikarmeisturum Vals, fer fram föstudagskvöldið 11. apríl á Kópavogsvelli.

Fyrstu umferðirnar í Bestu deild kvenna eru sem hér segir:

Þriðjudagur 15. apríl:
18.00 Breiðablik - Stjarnan
18.00 Þróttur R. - Fram

Miðvikudagur 16. apríl:
18.00 Tindastóll - FHL
18.00 Víkingur  R. - Þór/KA
18.00 Valur - FH

Mánudagur 21. apríl:
14.00 FHL - Valur
17.00 Þór/KA - Tindastóll

Þriðjudagur 22. apríl:
18.00 Þróttur R. - Breiðablik
18.00 Fram - FH
18.00 Stjarnan - Víkingur R.

Niðurröðun Bestu deildar kvenna

Síðasta umferðin í hefðbundinni deildarkeppni fer fram laugardaginn 20. september.

Síðustu umferðirnar þar sem efstu sex liðin mætast innbyrðis, sem og fjögur neðstu liðin, eru leiknar frá 27. september til 18. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka