Bikarmeistarar KA í knattspyrnu hafa samið við Guðjón Erni Hrafnkelsson um að leika með liðinu næstu þrjú árin, út tímabilið 2027. Kemur hann á frjálsri sölu frá ÍBV.
Guðjón Ernir er 23 ára gamall bakvörður sem hefur leikið með ÍBV undanfarin fimm tímabil. Meistaraflokksferilinn hóf hann hins vegar ungur að árum með uppeldisfélagi sínu Hetti.
Alls á Guðjón Ernir að baki 148 leiki í efstu fjórum deildum Íslands og hefur skorað í þeim sex mörk.
„Við ætlum okkur áfram stóra hluti og er koma Guðjóns hingað norður svo sannarlega stór hluti af þeirri vegferð. Við bjóðum Guðjón velkominn norður og hlökkum til að fylgjast með honum í gula og bláa búningnum,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá knattspyrnudeild KA.