Cecilía Rán Rúnarsdóttir, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, hefur heldur betur slegið í gegn með Inter Mílanó á Ítalíu í vetur og mörg af bestu liðum Evrópu horfa nú hýru auga til hennar.
Cecilía, sem er í láni hjá Inter frá Þýskalandsmeisturum Bayern München, var á dögunum valin í úrvalslið ítölsku A-deildarinnar fyrir árið 2024, enda þótt hún hafi aðeins leikið með liðinu frá því í ágúst. Hún hefur aðeins fengið á sig sex mörk í ellefu leikjum á tímabilinu.
Samkvæmt heimildum mbl.is vill Bayern framlengja samninginn við Cecilíu en Inter vill hins vegar kaupa hana af þýsku meisturunum.
Juventus, sem er á toppi ítölsku deildarinnar, eina liðið sem er fyrir ofan Inter, er sagt vilja fá hana í sínar raðir og þá er hún samkvæmt sömu heimildum á radarnum hjá Real Madrid á Spáni og ensku stórliðunum Chelsea og Manchester United.
Cecilía er aðeins 21 árs gömul og lék sinn þrettánda A-landsleik gegn Kanada í lok nóvember. Hún lék einnig gegn Bandaríkjunum í október en hafði þá ekki spilað landsleik í 15 mánuði eftir að hafa verið frá keppni allt tímabilið 2023-24 vegna meiðsla.