Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Íslenskt íþróttafólk sem öðlast frama erlendis hefur í langflestum tilfellum hafið íþróttaiðkun í íslenskum íþróttafélögum víðs vegar um landið þótt vitaskuld séu dæmi um þekkta Íslendinga sem ólust upp erlendis og fengu þar sitt íþróttauppeldi. Eru það undantekningar.
Íþróttamaður ársins 2024, Glódís Perla Viggósdóttir, ólst til að mynda upp hjá HK í Kópavogi og lék fyrst í meistaraflokki með sameinuðu liði HK og Víkings í næstefstu deild. Glódís var einungis 14 ára þegar hún lék fyrstu leikinn með meistaraflokki í Íslandsmótinu. Með HK/Víkingi lék hún árin 2009 - 2011.
Þá gekk hún í Stjörnuna í Garðabæ. Lék þar þrjú tímabil og spilaði sig inn í A-landsliðið. Þá var orðið ljóst að fyrir henni átti að liggja að fara erlendis og í atvinnumennskunni hefur hún leikið með Eskilstuna og Rosengård í Svíþjóð og er nú hjá þýsku meisturunum í Bayern München. Þar er hún raunar fyrirliði eins og í landsliðinu.
Morgunblaðið og mbl.is hafa lengi fylgst með Glódísi og meðfylgjandi mynd er tekin í Mosfellsbænum þegar Stjarnan sótti Aftureldingu heim í efstu deild Íslandsmótsins í ágúst 2012 eða fyrir rúmum tólf árum síðan. Glódís virðist skalla að marki Mosfellinga en á myndinni eru einnig Mist Elíasdóttir markvörður Aftureldingar og Sigrún Ella Einarsdóttir (8) leikmaður Stjörnunnar.
Myndina tók Ómar Óskarsson sem myndaði í áraraðir fyrir Morgunblaðið og mbl.is.
Glódís Perla hefur alls leikið 50 leiki í efstu deild hér heima með Stjörnunni og skoraði í þeim 5 mörk. Hún á að baki 130 A-landsleiki sem er stórmerkilegt í ljósi þess að hún er einungis 29 ára gömul. Hefur hún skorað 11 mörk fyrir landsliðið þótt miðvörður sé.
Glódís hefur fimm sinnum verið á meðal tíu efstu í kjöri Samtaka íþróttafréttamanni á íþróttamanni ársins og hafnaði í 2. sæti árið 2002 og í 3. sæti í fyrra.