ÍR valtaði yfir Víkinga

Bergvin Fannar Helgason skoraði fjögur.
Bergvin Fannar Helgason skoraði fjögur. mbl.is/Eyþór

ÍR vann afar sannfærandi sigur á Víkingi úr Reykjavík, 6:1, á Reykjavíkurmóti karla í fótbolta í kvöld. Leikið var í Egilshöll í Grafarvogi.

Lið Víkings var nær einungis skipað leikmönnum úr 2. flokki og voru ÍR-ingar mun sterkari en reynsluminni andstæðingar.

Bergvin Fannar Helgason skoraði fjögur mörk fyrir ÍR og Guðjón Máni Magnússon tvö. Jóhann Kanfory Tjörvason skoraði mark Víkings.  

Fjölnir og Leiknir mættust fyrr í dag í sama riðli og skildu jöfn, 2:2, en um er að ræða fyrstu leiki riðilsins.

Bogdan Bogdanovic og Davíð Júlíus Jónsson skoruðu mörk Leiknis. Kristófer Dagur Arnarsson og Axel Freyr Ívarsson skoruðu fyrir Fjölni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert