„Þá hefði ég verið skúrkur Íslands“

„Ég tók því fagnandi þegar ég var valinn aftur í landsliðið eftir alltof langa pásu að mínu mati,“ sagði knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Theódór Elmar Bjarnason í Dagmálum.

Theódór Elmar, sem er 37 ára gamall, lagði skóna á hilluna í haust eftir farsælan feril og var ráðinn aðstoðarþjálfari uppeldisfélags síns KR.

Var farinn að ergja sig

Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson völdu Elmar aftur í landsliðið árið 2014 eftir að hann hafði ekki spilað með landsliðinu í rúmlega þrjú ár. 

„Ég var leikmaður ársins hjá Gautaborg, í liði ársins í Danmörku og valinn næstbesti kantmaðurinn í norsku úrvalsdeildinni,“ sagði Theódór Elmar.

„Ég var farinn að ergja mig á því að vera ekki kallaður aftur inn en væntanlega er maður ekki kallaður inn eftir svona stæla, þá á maður það bara ekki skilið. Ég tók því fagnandi þegar ég var valinn aftur og hugsaði með mér að ég myndi gera það sem mér væri sagt að gera og bíta bara í tunguna á mér,“ sagði Theódór Elmar.

Ennþá öskrað á mann

Elmar lagði upp eitt mikilvægasta mark landsliðsins frá upphafi, gegn Austurríki í París í riðlakeppni Evrópumótsins, en markið skaut Íslandi áfram í 16-liða úrslit keppninnar.

„Það er ennþá öskrað á mann niður í miðbæ; farðu inn á teiginn Emmi. Ég endurupplifi samt annað augnablik, sem átti sér stað fimm mínútum fyrr líka, þegar ég var hársbreidd frá því að gefa Austurríki víti. Þá hefði ég verið skúrkur Íslands en það er stutt á milli í þessu.

Mér leið eins og þetta væri heil eilífð og ég man ekki nákvæmlega hvað ég var að hugsa. Það hefur aðeins horfið en ég man bara eftir stemningunni eftir leikinn og ég hef séð myndbandið af þessu óteljandi oft og hún lifir alltaf,“ sagði Theódór Elmar meðal annars.

Viðtalið við Theódór Elmar í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Theódór Elmar Bjarnason.
Theódór Elmar Bjarnason. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert