Eyþór samdi við Fylki

Eyþór Aron Wöhler er genginn til liðs við Fylki.
Eyþór Aron Wöhler er genginn til liðs við Fylki. Ljósmynd/Fylkir

Knattspyrnumaðurinn Eyþór Aron Wöhler er genginn til liðs við Fylki og skrifaði undir tveggja ára samning í Árbænum. Eyþór Aron er 22 ára sóknarmaður sem kemur frá KR á frjálsri sölu.

Hann lék með KR á síðasta tímabili en fékk samningi sínum rift eftir það. Áður hafði Eyþór Aron leikið með Breiðabliki, HK, ÍA og Aftureldingu, þar sem hann er uppalinn.

Sóknarmaðurinn á að baki 76 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað 15 mörk og 19 leiki í 1. deild, þar sem Eyþór Aron skoraði tvö mörk.

Fylkir leikur í 1. deild á næsta tímabili eftir að hafa fallið úr Bestu deildinni á því síðasta.

„Ég er afar sáttur með að ganga í raðir Fylkismanna á þessum tímapunkti. Hér í Árbænum er allt til staðar og ég mun gera allt til þess að standa mig vel í appelsínugulu treyjunni á næstu árum,” sagði Eyþór Aron í tilkynningu frá knattspyrnudeild Fylkis.

Hann er einnig tónlistarmaður og myndar hljómsveitina Húbba Búbba ásamt öðrum knattspyrnumanni, Kristali Mána Ingasyni, leikmanni Sönderjyske í Danmörku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert