Arnar Gunnlaugsson, nýráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, kvaddi stuðningsmenn Víkings úr Reykjavík á samfélagsmiðlinum X í dag.
Arnar, sem er 51 árs gamall, var ráðinn þjálfari íslenska landsliðsins á miðvikudaginn síðasta og var kynntur formlega til leiks sem þjálfari íslenska liðsins á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í gær.
Arnar tók við þjálfun Víkinga árið 2018, gerði liðið tvívegis að Íslandsmeisturum, fjórum sinnum að bikarmeisturum og þá er liðið komið alla leið í umspil um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar.
„Ég vil þakka kærlega fyrir öll þessi ár og allar frábæru minningarnar,“ sagði Arnar.
„Víkingur er mín fjölskyldu og það sem við höfum áorkað saman er stórkostlegt, eitthvað sem allir geta verið stoltir af. Að vera Víkingur er lífstíll og ég trúi því innilega að framtíðin sé björt.
Takk fyrir mig og ég elska ykkur öll,“ bætti Arnar við en kveðjuna má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.
Skilaboð frá Arnari Gunnlaugssyni til allra Víkinga nær og fjær #TakkArnar pic.twitter.com/k0OKOlE21c
— Víkingur (@vikingurfc) January 17, 2025