Eins og lítill krakki á jólunum

Arnar Gunnlaugsson sat í gær fyrir svörum á sínum fyrsta …
Arnar Gunnlaugsson sat í gær fyrir svörum á sínum fyrsta blaðamannafundi sem þjálfari íslenska karlalandsliðsins. Morgunblaðið/Karítas

„Ég er eins og lítill krakki á jólunum og ég er ofboðslega spenntur fyrir komandi verkefnum,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, nýráðinn þjálfari íslenska karlalandliðsins í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í gær.

Arnar, sem er 51 árs gamall, var ráðinn þjálfari íslenska liðsins á miðvikudaginn og skrifað undir þriggja ára samning við Knattspyrnusambandið, eða til ársins 2028. Hann hafði áður stýrt Víkingi úr Reykjavík frá árinu 2018 og gerði liðið tvívegis að Íslandsmeisturum og fjórum sinnum að bikarmeisturum á tíma sínum í Fossvoginum.

Fer brattur inn í starfið

Davíð Snorri Jónasson verður aðstoðarþjálfari Arnars með liðið en hann kom inn í þjálfarateymi A-landsliðsins á síðasta ári eftir að hafa þjálfað U21-árs landslið Íslands. Þá verður þjálfarateymi Arnars það sama og hjá Åge Hareide, forvera Arnars í starfi, að því undanskildu að Sölvi Geir Ottesen, aðstoðarþjálfari hans hjá Víkingum, mun ekki sjá um föst leikatriði liðsins líkt og hann gerði í síðustu leikjum Hareides með liðið.

„Ég kveð Víkinga á hárréttum tímapunkti. Það skilja allir sáttir og félagið er á frábærum stað. Á sama tíma tek ég við frábæru búi af Åge hjá landsliðinu og leikmannahópurinn er virkilega spennandi. Það eru góðir hlutir að gerast hjá landsliðinu og ég fer mjög brattur inn í þetta starf. Það er búið að tala mikið um næstu gullaldarkynslóð, stráka sem eru fæddir árið 2000 og allt upp til ársins 2005. Þessi kynslóð er mögulega komin lengra en gamla gullaldarkynslóðin okkar þegar hún var á svipuðum aldri. Margir af þessum strákum spila fyrir góð og sterk félagslið.

Það eru mjög jákvæð teikn á lofti finnst mér um að það séu bjartir tímar fram undan, og svo er það bara okkar þjálfaranna að aðstoða þá og leiðbeina í rétta átt. Þessir strákar hafa alla burði til þess að verða að þeim leikmönnum sem gullaldarkynslóðin okkar varð síðar meir og þeir hafa líka alla burði til þess að ná sama árangri og sú kynslóð gerði.

Svo eigum við líka leikmenn í eldri kantinum sem eru ennþá frábærir í fótbolta. Þeir eiga ennþá töluvert inni finnst mér og vilja spila áfram með landsliðinu. Til þess þurfa menn að vera í leikformi og spila reglulega fyrir sín félagslið. Það fær enginn gefins mínútur í þessu landsliði en mér finnst við hafa allt til brunns að bera til þess að ná alvöruárangri,“ sagði Arnar, sem lék sjálfur 32 A-landsleiki á árunum 1993 til ársins 2003 og skoraði í þeim þrjú mörk.

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert