Knattspyrnukonan Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir er gengin til liðs við Víking úr Reykjavík.
Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni en Áslaug Dóra, sem er 21 árs gömul og leikur sem varnarmaður, skrifaði undir tveggja ára samning í Víkinni.
Hún kemur til félagsins frá Örebro þar sem hún lék á síðustu leiktíð en liðið hafnaði í 13. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar og féll í B-deildina. Hún lék alla 26 deildarleiki Örebro á síðustu leiktíð, 18 þeirra í byrjunarliðinu.
Hún er uppalin á Selfossi og lék þar til loka tímabilsins 2023 en hún á að baki 86 leiki fyrir félagið í efstu deild þar sem hún hefur skorað þrjú mörk. Þá á hún að baki einn A-landsleik og 30 leiki fyrir yngri landslið Íslands.