Atli Arnarson, einn af burðarásunum í knattspyrnuliði HK, hefur framlengt samning sinn við Kópavogsfélagið og leikur áfram með því á næsta tímabili.
Atli, sem er uppalinn hjá Tindastóli, kom til HK frá ÍBV fyrir tímabilið 2019 og hefur spilað með liðinu í sex ár, fimm þeirra í úrvalsdeildinni og eitt í 1. deild. Hann spilar því sitt annað tímabil með liðinu í 1. deild á þessu ári en HK féll úr Bestu deildinni í haust.
Atli er 31 árs gamall miðjumaður sem er orðin fimmti leikjahæsti og annar markahæsti leikmaður HK í efstu deild með 93 leiki og 16 mörk. Alls á hann að baki 144 leiki í efstu deild með HK, ÍBV og Leikni R. og 263 leiki í öllum deildum Íslandsmótsins.