Víkingur spilar í Finnlandi

Víkingar spila heimaleik sinn í Helsinki.
Víkingar spila heimaleik sinn í Helsinki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heimaleikur Víkings úr Reykjavík gegn gríska liðinu Panathinaikos í umspili um sæti 16-liða úrslitum Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu karla fer fram í Helsinki í Finnlandi.

Víkingur staðfesti tíðindin í tilkynningu á heimasíðu sinni í dag en miklar vangaveltur hafa verið um hvar leikurinn gæti farið fram þar sem ljóst væri að það yrði ekki hér á landi vegna skorts á leikvöngum sem standast kröfur Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA.

Um tíma var útlit fyrir að leikurinn færi fram í Danmörku en nú er ljóst að hann fer fram á Bolt Arena í Helsinki, heimavelli stórliðs HJK þar í borg.

„Völlurinn tekur rúmlega 10.000 áhorfendur og gert er ráð fyrir ca. 800 aðdáendum Panathinaikos.

Þar sem um heimaleik okkar er að ræða þá er mikilvægt að strákarnir fái allan þann stuðning sem mögulegur er og því hvetjum við alla Víkinga sem það mögulega geta að koma með og styðja liðið,“ sagði meðal annars í tilkynningu Víkings.

Fyrri leikur liðanna í Helsinki fer fram 13. febrúar og sá síðari í Aþenu viku síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert