„Þú kemst ekkert hjá því að fylgjast með umræðunni,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, nýráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í Dagmálum.
Arnar, sem er 51 árs gamall, var ráðinn landsliðsþjálfari þann 15. janúar eftir að hafa stýrt Víkingi úr Reykjavík frá árinu 2018 en liðið varð tvívegis Íslandsmeistari undir stjórn Arnars og fjórum sinnum bikarmeistari.
Arnar fylgist vel með fjölmiðlum og hefur alltaf gert en hann á að baki farsælan atvinnumannaferil áður en hann gerðist þjálfari.
„Hver sá sem er í þannig starfi, þjálfari eða leikmaður, og segist ekki fylgjast með fjölmiðlum; hann er bara lygari,“ sagði Arnar.
„Það er hégómi í öllum okkar aðgerðum í lífinu og þú vilt að það sé talað vel um þig. Þú fylgist vel með því og ef það er talað illa um þig lætur öll fjölskyldan þig vita af því,“ sagði Arnar meðal annars.
Viðtalið við Arnar í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.