Fram vann sterkan sigur á Íslandsmeisturum Breiðabliks, 3:1, í fyrstu umferð riðils 2 í A-deild deildabikars karla í knattspyrnu í Fífunni í kvöld.
Vuk Oskar Dimitrijevic kom Fram yfir með marki úr vítaspyrnu eftir rúmlega hálftíma leik.
Nokkrum mínútum síðar, á 37. mínútu, jafnaði hinn 18 ára gamli Gabríel Snær Hallsson metin fyrir Breiðablik og staðan því 1:1 í hálfleik.
Snemma í síðari hálfleik gerði Fram út um leikinn. Fyrst skoraði danski reynsluboltinn Kennie Chopart á 52. mínútu og fjórum mínútum síðar innsiglaði Vuk Oskar sigurinn með öðru marki sínu og þriðja marki Framara.