Knattspyrnukonan Heiðdís Lillýjardóttir er gengin aftur til liðs við Breiðablik. Síðast var Heiðdís á mála hjá Basel í Sviss en fór þaðan eftir að hafa tilkynnt félaginu að hún væri barnshafandi.
Heiðdís eignaðist sitt fyrsta barn, dótturina Lillý, í ágúst á síðasta ári ásamt handknattleiksmanninum Hjálmtý Alfreðssyni.
Hún lék með Breiðabliki frá 2017 til 2022 og varð tvisvar Íslandsmeistari og tvisvar bikarmeistari með liðinu en ólst upp hjá Hetti á Egilsstöðum. Hún lék síðan með Selfyssingum í tvö ár áður en hún fór til Breiðabliks.
Heiðdís er 28 ára gömul og leikur í stöðu miðvarðar. Hún var lánuð til Benfica í Portúgal í byrjun árs 2022, lék svo með Breiðabliki síðar það ár og gekk svo til liðs við Basel í mars árið 2023.
Hún á að baki 126 leiki í efstu deild hér á landi með Breiðabliki og Selfossi og ennfremur 60 leiki með Hetti 1. deild.