Ísland mætir Norður-Írlandi í vináttulandsleik karla í knattspyrnu í Belfast 10. júní. Knattspyrnusamband Íslands skýrði frá þessu í dag.
Íslenska liðið dvelur því um hríð á Bretlandseyjum í byrjun júní því þann 6. júní mætast Ísland og Skotland í vináttulandsleik í Glasgow.
Þetta verður sjöundi landsleikur þjóðanna og sá fyrsti í sautján ár. Ísland hefur unnið fjóra af leikjunum til þessa og Norður-Írar tvo.
Liðin mættust síðast í undankeppni EM á árunum 2006 og 2007. Ísland sigraði þá 3:0 í Belfast og síðan 2:1 á Laugardalsvellinum.