KR-ingar lögðu Keflvíkinga að velli, 2:0, í gærkvöld þegar liðin mættust í deildabikar karla í knattspyrnu í Egilshöllinni í Reykjavík.
Leikurinn átti upphaflega að fara fram á gervigrasvelli KR-inga en var fluttur í Egilshöllina vegna slæms veðurútlits.
Aron Sigurðarson kom KR yfir á 36. mínútu og Stefán Árni Geirsson tryggði sigurinn með marki á 68. mínútu.
Þetta var fyrsti leikurinn í 4. riðli A-deildar en í riðlinum eru jafnframt ÍBV, Leiknir R., Stjarnan og Selfoss. Á fimmtudagskvöld mætast Selfoss og Leiknir á Selfossi og Stjarnan tekur á móti ÍBV í Garðabæ á föstudagskvöldið.