Fótboltamaðurinn Róbert Orri Þorkelsson er spenntur fyrir komandi tímum með sínu nýja félagsliði Víkingi úr Reykjavík.
Róbert Orri, sem er 22 ára gamall, skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning við Víkinga um síðustu helgi en samningurinn gildir út keppnistímabilið 2027.
Hann kemur til félagsins frá Kongsvinger þar sem hann lék með liðinu í norsku B-deildinni á síðustu leiktíð, á láni frá CF Montréal, en Róbert gekk til liðs við kanadíska félagið, sem leikur í bandarísku MLS-deildinni, árið 2021 frá Breiðabliki.
Varnarmaðurinn á að baki fjóra A-landsleiki og þá á hann að baki 40 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands, þar af 17 með 21 árs landsliðinu þar sem hann var fyrirliði um skeið.
„Ég hef mjög góða tilfinningu fyrir þessu og það eru mjög spennandi tímar fram undan hjá Víkingunum. Markmiðið var að vera áfram úti en ég taldi þetta besta skrefið fyrir mig, á þessum tímapunkti, úr því sem komið var,“ sagði Róbert í samtali við Morgunblaðið.
Róbert Orri var nálægt því að ganga til liðs við danska úrvalsdeildarfélagið Sönderjyske og fór hann til Spánar, þar sem liðið var í æfingaferð, til þess að hitta forráðamenn þess áður en félagaskiptin duttu óvænt upp fyrir.
„Ég flaug út til Spánar með það fyrir augum að ég væri að fara í læknisskoðun hjá þeim og svo yrði bara skrifað undir. Ég veit ekki hvað gerðist nákvæmlega en tveimur dögum eftir komu mína til Spánar kom annar miðvörður til móts við hópinn. Þá fór af stað einhver leikþáttur og ég fékk svo að vita af því að mér yrði ekki boðinn samningur.
Ég veit ekki hvað gerðist nákvæmlega en skilaboðin sem ég fékk, þegar ég fór út, voru þau að ég væri að fara að skrifa undir samning. Þetta var því fýluferð, sem átti ekki að enda eins og hún gerði, en fótboltaheimurinn er harður heimur og á endanum gera félögin það sem þau telja best fyrir sig. Þannig er það nú bara.“
Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.