Tvö íslensk félög í bann hjá FIFA

Úr leik Gróttu og Fram fyrir nokkrum árum.
Úr leik Gróttu og Fram fyrir nokkrum árum. mbl.is/Sigurður Unnar

Knattspyrnufélögin Fram og Grótta hafa bæði verið úrskurðuð í félagaskiptabann af Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA.

RÚV greinir frá því að bannið sé í gildi næstu þrjá félagaskiptaglugga en að bæði félög ættu að geta fengið banninu hnekkt geri þau upp skuldir sem FIFA telur að félögin þurfi gera upp.

Bannið hjá Fram lýtur að vangoldnum launum Jesús Yendis, knattspyrnumanns frá Venesúela sem lék með Fram árið 2022 en yfirgaf félagið þegar hann átti tvo mánuði eftir af samningi sínum.

Daði Guðmundsson hjá knattspyrnudeild Fram sagði í samtali við RÚV að FIFA hafi dæmt félagið til þess að greiða Yendis laun fyrir mánuðina tvo sem hann átti eftir af samningi.

Telji Fram að félagið losni úr banninu með því að gera upp við Yendis.

Grótta kemur af fjöllum

433.is greindi fyrst frá málinu í dag og þar kom fram að hvorki Jón Sigurðsson framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Gróttu né Þorsteinn Ingason formaður deildarinar hefðu vitneskju um hvers vegna félagið hafi verið sett í félagaskiptabann.

Jón og Þorsteinn ynnu nú að því að fá úr því skorið hvað Grótta þyrfti að gera til þess að leysa málið og komast undan banninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert