Danski knattspyrnumarkvörðurinn Mathias Rosenörn er genginn til liðs við FH og hefur samið við Hafnarfjarðarfélagið til tveggja ára.
Rosenörn er 31 árs gamall og hefur leikið í Bestu deildinni undanfarin tvö ár. Hann var aðalmarkvörður Keflvíkinga tímabilið 2023 og spilaði 25 af 27 leikjum þeirra í deildinni.
Á síðasta ári lék hann með Stjörnunni en var þar í hlutverki varamarkvarðar og spilaði aðeins tvo leiki í Bestu deildinni en spilaði hins vegar fjóra bikarleiki og alla fjóra Evrópuleiki Garðabæjarliðsins.
Rosenörn lék áður með Esbjerg, Thisted, Brabrand og Skive í Danmörku og spilaði fjóra leiki með U19 ára landsliði Danmerkur. Hann lék alls 118 deildaleiki í Danmörku áður en hann kom til Íslands.
Sindri Kristinn Ólafsson var aðalmarkvörður FH á síðasta tímabili og er ennþá í röðum félagsins en hann á ár eftir af samningi sínum.