Ísland mætir Sviss í fyrsta leik sínum í Þjóðadeild kvenna í knattspyrnu föstudaginn 21. febrúar næstkomandi.
Íslenska liðið er með Sviss, Noregi og Frakklandi í riðli 2 í A-deild Þjóðadeildarinnar. Ísland verður með tveimur fyrrnefndu þjóðunum í riðli á Evrópumótinu í Sviss í sumar. Finnland er síðan fjórða liðið í riðlinum á EM.
Ísland mun því leika tvisvar við Sviss og tvisvar við Noreg fyrir Evrópumótið. Það er óvenjuleg staða.
Þorsteinn er ekki alveg viss hvað honum finnst um það.
„Ég veit það ekki. Við munum fara í þessa leiki til að vinna þá og verðum ekki með neinn feluleik til að plata þessi lið eða tilraunarstarfsemi því við erum að fara mæta þeim á EM.
Þessir leikir skipta gríðarlega miklu máli. Við stefnum á að vera í öðru tveggja efstu sætunum í þessum riðli. Þá verðum við í góðum styrkleikaflokki þegar dregið er í undankeppni HM í haust.
Við lítum á þessa leiki líkt og aðra. Það er langt í EM, leikmenn geta meiðst og nýir koma inn. Ég held að allir fari í þessa leiki til að vinna þá.
Það er ekki lengur hægt að fela eitthvað,“ sagði Þorsteinn á blaðamannafundi á Laugardalsvelli í dag.