Sif ráðin framkvæmdastjóri

Sif Atladóttir á æfingu með íslenska landsliðinu árið 2022.
Sif Atladóttir á æfingu með íslenska landsliðinu árið 2022. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sif Atladóttir, fyrrverandi landsliðs- og atvinnumaður í knattspyrnu, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Leikmannasamtaka Íslands.

Sif hafði verið verkefnastjóri LSÍ frá árinu 2022 þar sem hún sinnti margvíslegum verkefnum. Áður var Sif til að mynda í stjórn leikmannasamtakanna í Svíþjóð þar sem hún talaði máli barnshafandi íþróttakvenna.

Tekur Sif við starfinu af Kristni Björgúlfssyni en hann er stofnandi LSÍ og hafði verið framkvæmdastjóri frá stofnun samtakanna árið 2014 en mun áfram sitja í stjórn LSÍ og sinna ýmsum verkefnum.

Sif lauk BS-gráðu í lýðheilsuvísindum frá háskólanum í Kristianstad árið 2018 og hóf nám í íþróttavísindum við háskólann í Kalmar/Växjö ári síðar. Árið 2023 tók Sif sér námsleyfi frá náminu í Svíþjóð þar sem hún fékk inngöngu í nám hjá UEFA fyrir fyrrverandi alþjóðlega leikmenn í Sport Management (UEFA MIP Program).

Leikmenn með enn sterkari rödd

„Með alþjóðlega reynslu sem atvinnumaður, stjórnarmaður í leikmannasamtökum Svíþjóðar sem og þátttakandi í þessu UEFA námi hefur Sif allt sem þarf til að leiða LSÍ inn í framtíðina.

Ráðning Sifjar sendir skýr skilaboð um að hagsmunir íþróttafólks á Íslandi verði áfram settir í forgang hjá samtökunum og er mikilvægt skref fyrir allt íþróttafólk á Íslandi. LSÍ eru hagsmunasamtök leikmanna og með komu Sifjar eru leikmenn komnir með enn sterkari rödd,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá LSÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert