Hefur alltaf verið draumur

Berglind Þorsteinsdóttir ræðir við fréttamenn i Innsbruck í dag.
Berglind Þorsteinsdóttir ræðir við fréttamenn i Innsbruck í dag. Ljósmynd/Jon Forberg

Berglind Þorsteinsdóttir, landsliðskona í handknattleik, segir eftirvæntinguna mikla fyrir því að taka þátt á sínu öðru stórmóti í röð með landsliðinu. Berglind er mætt með Íslandi til Innsbruck í Austurríki þar sem fram undan er þátttaka á EM 2024.

„Tilfinningin er geggjuð. Þetta hefur náttúrlega alltaf verið draumur. Eins og margoft hefur verið sagt síðustu fjögur árin var þetta planið. Þetta er frekar óraunverulegt en það er geggjað að vera loksins komin hingað,“ sagði Berglind í samtali við mbl.is á liðshótelinu í Innsbruck í gær.

Hún tók sömuleiðis þátt á HM 2023 í Danmörku, Noregi og Svíþjóð fyrir ári síðan og var hæstánægð með þá reynslu.

„Þetta var ótrúlega gaman og mjög stórt fyrir mann. Maður fylltist auðvitað miklu stolti. Vonandi verður þetta árlegt núna, að þetta verði loksins ár eftir langa pásu. Þetta er bara draumur að rætast,“ sagði Berglind.

Getum alveg staðið í þessum þjóðum

Ísland er í F-riðli með Hollandi, Þýskalandi og Úkraínu. Tvær fyrrnefndu þjóðirnar hafa yfir að skipa afar sterkum liðum. Ísland byrjar gegn Holland á morgun og hefst leikurinn klukkan 17. Hún fer ekki í grafgötur með það að Evrópumótið sé erfiðara en heimsmeistaramótið.

„Þetta er klárlega mun erfiðari riðill en við vorum í á HM en það getur náttúrlega allt gerst. Við erum búnar að sýna það, eins og á móti Póllandi. Við spiluðum mjög góða leiki á móti þeim og Svisslendingum líka.

Við getum alveg staðið í þessum þjóðum ef við eigum mjög góðan leik. Þetta verður mjög erfitt en ég hef fulla trú á okkur,“ sagði Berglind ákveðin.

Leggjum þetta þannig upp

Hvað þurfið þið að gera til að standa í þessum stóru þjóðum?

„Í fyrsta lagi þurfum við að spila þéttan varnarleik. Um leið og við gerum það fáum við þessi hraðaupphlaup, sem gefa okkur auðveld mörk. Ef við spilum góða vörn hjálpar það auðvitað markvörslunni.

Við leggjum þetta svolítið upp þannig, að fá þessi auðveldu mörk og vera skynsamar sóknarlega,“ sagði hún að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka