Perla Ruth Albertsdóttir, markahæsti leikmaður Íslands á EM 2024 í handknattleik með 20 mörk í þremur leikjum, er nokkuð ánægð með frammistöðu liðsins á mótinu í Innsbruck í Austurríki þrátt fyrir að það hafi lokið leik með stóru tapi fyrir Þýskalandi í F-riðli í gærkvöldi.
„Já, já, ég held að við verðum bara að vera það og kannski munum við fatta það enn þá betur á morgun [í dag]. Núna er maður drullutapsár og fúll.
Það er ógeðslega svekkjandi að tapa og hvað þá svona stórt en ef við erum raunsæjar þá er þetta eitt stærsta liðið í heiminum, sem er búið að vera á Ólympíuleikum og er með risa leikmenn í hverri stöðu,“ sagði Perla Ruth í samtali við mbl.is eftir leikinn í gærkvöldi.
„Við náðum fyrsta sigrinum, sem var markmið hjá okkur, auk þess sem við náðum að spila svakalegan leik á móti Hollandi.
Fyrstu 20 mínúturnar í þessum leik voru geggjaðar en svo áttum við ekki meira inni. En við erum reynslunni ríkari og ætlum okkur inn á næsta stórmót. Vonandi erum við komnar til að vera á stórmótum,“ bætti hún við.