Svíþjóð hafði betur gegn Svartfjallalandi, 25:24, í lokaleik milliriðils eitt á EM kvenna í handbolta í Debrecen í Ungverjalandi í kvöld.
Með sigrinum tryggði sænska liðið sér þriðja sæti riðilsins og leik um fimmta sæti mótsins. Svartfjallalandi nægði jafntefli til að ná þriðja sæti en verður að gera sér fjórða sætið að góðu.
Jamina Roberts skoraði sigurmark sænska liðsins á 57. mínútu því hvorugt liðið skoraði þrjár síðustu mínúturnar.
Nathalie Hagman var markahæst hjá Svíþjóð með fimm mörk. Djurdjina Jaukovic skoraði níu fyrir Svartfjallaland.