Mjög ósáttur með ummælin eftir tapið á Old Trafford

Casemiro átti ekki sinn besta dag gegn Liverpool.
Casemiro átti ekki sinn besta dag gegn Liverpool. AFP/ Jacob KupfermanJACOB KUPFERMAN

Rio Ferdinand, fyrrverandi varnarmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, er allt annað en sáttur með Jamie Carragher, fyrrverandi varnarmann Liverpool.

Carragher, sem starfar núna sem sparkspekingur hjá Sky Sports, var ómyrkur í máli í garðs Casemiros, miðjumanns United, eftir tap liðsins gegn Liverpool í stórleik 3. umferðar úrvalsdeildarinnar á Old Trafford á sunnudaginn.

„Hættu í fótbolta áður en fótboltinn gefst upp á þér,“ sagði Carragher eftir 3:0-sigur Liverpool og átti þar við Casemiro en brasilíski miðjumaðurinn gerði sig sekan um tvö slæm mistök, sem kostuðu tvö mörk, og var svo tekinn af velli í hálfleik.

Þvílík óvirðing við Casemiro

„Þessi ummæli eru þvílík óvirðing við Casemiro,“ sagði Ferdinand í hlaðvarpi sínu, Rio Fedinand Presents.

„Casemiro hefur unnið allt sem hægt er að vinna í fótboltanum. Hann á einn slæman leik og hann á að leggja skóna á hilluna. Hann var klárlega besti leikmaður United í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins.

Fyrir mér þá er ætlast til of mikils af honum. Hann á að dreifa spilinu, stjórna hraðanum, brjóta upp sóknir andstæðinganna og negla boltanum 30 metra fram völlinn. Hjá Real Madrid átti hann að brjóta upp sóknir mótherjanna og búið, aðrir leikmenn sá svo um að koma boltanum í spil,“ bætti Ferdinand við.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert