Stjórnarformaðurinn tjáði sig um framtíð ten Hags

Erik ten Hag.
Erik ten Hag. AFP/Darren Staples

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United í ensku úrvalsdeildinni, nýtur fulls stuðnings innan stjórnar félagsins þrátt fyrir brösótt gengi í upphafi tímabilsins.

Þetta tilkynnti stjórnarformaður enska félagsins, Omar Berrada, í samtali við BBC í vikunni en United tapaði illa fyrir Liverpool í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar á Old Trafford í Manchester á sunnudaginn 3:0.

Mikið var rætt og ritað um framtíð hollenska stjórans á síðustu leiktíð þar sem liðið hafnaði að endingu í áttunda sæti deildarinnar en varð þó bikarmeistari eftir sigur gegn Manchester City.

Nýtur fulls stuðnings

„Erik nýtur fulls stuðnings innan stjórnarinnar og við teljum að hann sé rétti maðurinn til þess að stýra liðinu,“ sagði Berrada.

„Við unnum mjög náið saman í sumar þegar við vorum að styrkja liðið og á því verður engin breyting. Við erum tilbúnir að leggja allt í sölurnar til þess að liðinu gangi vel inni á vellinum,“ bætti Berrada við.

United hefur ekki byrjað tímabilið vel í úrvalsdeildinni en liðið er með þrjú stig í 14. sætinu eftir fyrstu þrjár umferðirnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert